Æfing í þakklæti og þolinmæði

Aðdragandi jóla getur kallað fram margvíslegar tilfinningar og af ólíkum ástæðum.
Sum eru algjör jólabörn sem elska allt við jólin, allt frá snjónum til jólaljósanna og matarins. Á meðan aðrir kvíða jafnvel jólum, hafa áhyggjur af peningum, samskiptum við fjölskyldumeðlimi eða því að standa ekki undir væntingum.

Hvað sem jólin kunna að þýða fyrir þig, þá langar mig að hvetja þig til að nýta desember fyrir þakklæti. Hvernig sem á það er litið höfum við öll eitthvað til að vera þakklát fyrir.
Jafnvel á erfiðustu stundum lífsins er einhver glæta, einhver von, einhver stund sem er ekki hægt að ræna frá okkur. Ég kalla þetta ómetanlegu augnablikin.

Ómetanlegt

Áskorun desembermánaðar er að leita að litlu ómetanlegu augnablikunum. Þessir litlu hlutir sem eru næstum því ósýnilegir, sem er svo auðvelt að horfa framhjá, en eru í raun stórkostleg birtingarmynd lífsins á Jörðinni. Þessar stundir sem enginn getur tekið frá okkur, sama hvað á dynur í lífinu. Þær verða alltaf til staðar, koma hver á eftir annarri og ef við kjósum að taka eftir þeim verða þær ómetanlegir gullmolar sem brjóta upp hversdagslífið.

Þetta gæti verið 

  • að taka eftir fuglasöngnum
  • að heyra brakið í snjónum undir skónum
  • að gleyma sér í sleðaleik með börnum
  • að njóta einlægra samræðna við einhvern sem þér þykir vænt um
  • að keyra varlega þó sólin skíni beint í augun og minna sig á að bráðum fer daginn að lengja aftur

Mögulegar aukaverkanir af þessari æfingu eru: aukin núvitund og þakklæti.

þakklæti

Núvitund

Það er líklegt að með þessu leyfir þú huga þínum að dvelja oftar (og mögulega lengur) við stað og stund. Hugur okkar er þeim eiginleikum gæddur að geta verið hvar sem er í tíma og rúmi. Við stöndum okkur líklega öll að því að hugsa um of um atburði sem gerðust í fortíð. Við reynum kannski að skilja þá betur eða óska þess að þeir hefðu farið á annan veg.

Að sama skapi getum við eytt ómældum tíma í að velta fyrir okkur atburðum sem munu ef til vill og bara kannski gerast í framtíðinni. Þannig getum við eytt dýrmætum tíma og orku í að hugsa um atburð eða atburðarás sem mun bara kannski eiga sér stað. Þvílík sóun!

Þannig finnum við flest að hugur okkar dvelur oft í fortíð eða framtíð, stundum með eftirsjá eða kvíða í farteskinu. Betra væri ef við hugsum lítið um fortíðina, bara nógu mikið til að læra af liðnum atburðum til að geta breytt öðruvísi næst í sömu eða svipuðum aðstæðum. Að sama skapi er gott að dagsetja viðburði inn í framtíðina, án þess að skipuleggja eða hugsa um hvert einasta smáatriði sem tengist þeim. Til að okkur líði sem best þarf að vera gott jafnvægi á milli þess að gera og að vera. Það getur þó reynst snúið að vera bara og dvelja með athyglina í núinu. Flest erum við að reyna að nota tíma okkar vel og helst að framkvæma marga hluti í einu. Annríki er líka mjög góð afsökun fyrir að framkvæma hluti ekki eins vel og við gætum. Það versta við það er að yfirleitt vitum við upp á okkur sökina, en vitum ekki endilega hvað við eigum að gera leysa málin.

Þakklæti

Ég hvet þig til að skrifa niður þessi ómetanlegu augnablik á miða, setja miðann í stóra krukku og safna þeim saman yfir allan desember. Á Aðfangadag eða Jóladag má svo lesa alla miðana og endurupplifa stundina. Skemmtilegast er ef öll fjölskyldan tekur þátt, þetta er líka góð leið til að kynnast hverju öðru betur. Veist þú hvaða stundir þínu barni finnast ómetanlegar? Væri ekki gaman að geta gefið meira af slíkum stundum?

Ég mun tileinka desember þakklætinu og hvet þig til að gera slíkt hið sama. #Ómetanlegt

þakklæti

 

 

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.