Áskorun vikunnar: Hryggvinda

Hryggvindur (e. spinal twist) eru grunnstöður í jóga og hægt er að velja sér djúpa og grunna vindu eftir því hvernig okkur líður og hversu mikla hreyfingu  við ráðum við.

Hér verður farið yfir einfalda brjóstbaks-vindu, þ.e. hryggvindu fyrir efri hluta búks. En flest erum við að glíma við marga sömu kvillana og þurfum því frekar að styrkja mjóbak (í stað þess að liðka) og liðka brjóstbak.

Hryggvindan skref fyrir skref

1. Fótstaða

Taktu lítið skref fram með vinstri fæti, þannig að þú hafir gott jafnvægi og standir jafnt í báða fætur. Reyndu að forðast að læsa hnjánum alveg.

2. Hendur og handleggir

Gríptu í olnbogana og haltu höndunum nokkurnveginn í axlarhæð.

3. Í takt við öndun

  • Innöndun: horfðu beint fram, reyndu jafnvel að lengja hrygg aðeins
  • Útöndun: snúðu upp á þig til vinstri
  • Endurtaktu: 2-3 sinnum fyrir þessa hlið áður en þú gerir fyrir hina hliðina


4. Brak og brestir?

Stundum þegar við gerum þessa æfingu þá er eins og það braki í bakinu á okkur! Ef þú finnur það gerast hjá þér, skaltu ekki hafa áhyggjur. Það er bara spenna að losna, getur jafnvel veitt vellíðan!

En höfum hugfast ráðleggingar frá hnykklæknum sem segja; að þó þetta brak sé hættulaust ef það kemur svona, þá skulum við ekki reyna að framkalla brakið að óþörfu 🙂

 

5. Og alltaf …

… í takt við öndun!

Um leið og þú heldur inni í þér andanum eða rembist, er það merki um að þú ert komin/n aðeins of langt inn í stöðuna miðað við líkamlega getu dagsins í dag.

Berum virðingu fyrir ástandi líkamans og gerum æfinguna eins og okkur þykir best 🙂

Nú er komið að þér! Vendu þig á góðar vindur

Hryggvinda eins og allar æfingar, skilar mestum árangri ef þú framkvæmir hana reglulega. Best er að gera æfinguna daglega og langbest er að tengja æfinguna við eitthvað sem þú gerir nú þegar. Eitthvað sem er nú þegar partur af þínum venjum.

Þess vegna ætla ég að hvetja þig til að tengja þessa æfingu við morgun-rútínuna og það hvernig þú teygir úr þér á morgnana. Þú ert hvort sem er að teygja þig og beygja, því ekki að bæta þessari meðvituðu teygju inn í planið?

Ertu í stuði núna? Óþarfi að bíða fram á næsta morgunn 😉

Ég skora á þig að standa upp og framkvæma þessa einföldu æfingu. Allt sem þarf til er vilji og nokkur andartök!

Það er bara til eitt  eintak af þér. Farðu vel með það.

Aðstoð?

Viltu fá aðstoð kennara? Bókaðu Jakkafatajóga á vinnustaðinn eða komdu í jóga með Eygló á kvöldin í Víkurhvarfi 1, Kópavogi.

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.