Áskorun vikunnar: Djúpöndun

 

Afhverju djúpöndun?

Við drögum andann í fyrsta sinn þegar við fæðumst og fyllumst lífi. Megnið af tímanum hugsum við ekki út í öndun eða andardrátt okkar – ekki fyrr en það amar eitthvað að. Þannig gengur það alveg þangað til við göngum veginn okkar á enda og öndumst.

Einhver gæti spurt hvers vegna í ósköpunum við þyrftum að æfa öndun, eitthvað sem gerist bara án þess að við hugsum um það.

En eins og með aðra þætti í okkar lífi hvort sem það er færni eða eiginleiki, þá er hægt að æfa öndun og nota öndun í margvíslegum tilgangi.

Hér ætlum við að skoða djúpöndun aðallega út frá tveimur vinklum

  • Öndunardýpt
  • Slökun

Öndunardýpt

Við erum með stórt lungnarými og notum það sjaldnast allt í hvert sinn sem við drögum andann. Þegar við öndum djúpt þá tökum við inn meira af lofti, þar af leiðandi meira af súrefni og líkaminn fær meira til að vinna með þangað til við drögum andann næst. Með öðrum orðum líkaminn getur sent meira súrefni til vinnandi vöðva og heila.

Það sem gerist einnig við djúpöndum er að við komumst framhjá dauðaloftinu. En það er merkilegt fyrirbæri sem má lesa betur um hér:

>>Lesa meira um dauðaloftið hér<<

Slökun

Við könnumst líklega öll við að mæðast við áreynslu, til dæmis rösklega göngu eða hlaup. Það er einmitt gott dæmi um tilraun líkamans til að sækja meira loft (súrefni) til að senda til vinnandi vöðva. Þegar við öndum djúpt sendum við líkamanum skilaboð um að við séum í slöku ástandi; að við séum örugg og ekkert að óttast. Það er nóg af súrefni í líkamanum fyrir þá starfssemi sem er í gangi. Þegar við öndum djúpt þá kemur heilbrigð teygja á þindina og það er merkilegur vöðvi.

Þindin er eini vöðvinn sem við getum stjórnað með djúpöndun, sem hefur bein og slakandi áhrif á ósjálfráða taugakerfið okkar!

Þegar við æfum djúpöndun þá raunverulega:

  • hægist á púlsi
  • blóðþrýstingur lækkar
  • sjáldur í augum minnka

Til að auka ennfrekar á slökunarþáttinn, þá er hægt að hægja enn frekar á fráöndun.

Ótrúlegt ekki satt!

Nú er komið að þér!

Það er upplagt að æfa djúpöndun á kvöldin þegar þú ert komin/n upp í rúm. Bæði vegna þess að þá ert þú í liggjandi stöðu og áreiti hversdagsins er fjarri (og síminn vonandi líka). En aðalástæðan er sú að djúpöndun hjálpar til við að slaka á líkamanum og mun að öllum líkindum hjálpa þér að sofna fyrr og betur.

Ertu í stuði núna? Óþarfi að bíða fram á kvöld! Ef þú tildæmis situr núna og hefur næði í tvær mínútur er upplagt að hlusta á upptökuna hér fyrir neðan.

Því ekki að framkvæma þessa einföldu æfingu strax? Allt sem þarf til er vilji og nokkur andartök!

Það er bara til eitt  eintak af þér. Farðu vel með það.

Aðstoð?

Viltu fá aðstoð kennara? Bókaðu Jakkafatajóga á vinnustaðinn eða komdu í jóga með Eygló á kvöldin í Víkurhvarfi 1, Kópavogi.

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.