Áskorun vikunnar: ökkla- og úlnliðshreyfingar

Afhverju þarf að hreyfa ökkla og úlnliði?

Líkaminn er eins og löng keðja sem samanstendur af liðamótum, vöðvum, beinum og mörgu öðru. Hver einasti hlekkur í keðjunni þarf að vera nægjanlega sterkur til að flytja afl í gegnum allan líkamann og til að taka við álagi. Keðjan sjálf  (líkaminn okkar) er bara jafn sterkur og veikasti hlekkur hennar.

Stundum hugsum við ekki sérstaklega um ákveðna líkamshluta okkar, fyrr en þeir bila! 🙂 Og þá á vel við að rifja upp gamla íslenska orðatiltækið:

Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur!

Hugsaðu þér ef þú gæti ekki hreyft ökkla eða úlnliði á jafn fjölbreyttan hátt og liðamótin eru ætluð til. Hvernig væri göngulag þitt? Hversu auðvelt væri að lyfta upp kaffibollanum og dreypa á?

>>Lestu meira um: Veika hlekkinn í líkamanum hérna<<

Þreyta í fótum í lok dags?

Yfir daginn getur það gerst að bláæðablóð safnist fyrir í útlimum og þá aðallega fótum. Þetta gerist vegna þess að æðarnar fá ekki nógu mikla örvun frá vöðvunum í kring (hreyfingu) til að pumpa blóðinu aftur upp eftir líkamanum. Þetta getur valdið þreytu, bólgu, bjúgum og jafnvel fótapirringi hjá okkur.

Það eru nokkrar góðar leiðir til að hjálpa líkamanum við að skila blóðinu aftur til hjartans; 1) Viðsnúnar jógaæfingar – sem verður fjallað betur um seinna og svo 2)Hreyfingar á ökkla og úlnlið.

Hvernig

Hreyfingarnar eru einfaldar og eiga jafnt við um ökkla sem og úlnliði:

  • Krepptu og réttu ökkla / Hreyfðu úlnliði upp og niður
  • Gerðu hringhreyfingu í báðar áttir
  • Glenntu í sundur tær og fingur

Framkvæmdu hverja æfingu um það bil 10 x

og mundu: að gera pínulítið er betra en að gera ekki neitt!

 

Nú er komið að þér!

Það er upplagt að æfa þessar hreyfingar á kvöldin þegar þú ert komin/n upp í rúm. Bæði vegna þess að þá stendur þú ekki í fæturna og þú nýtur áhrifanna best í lok dags.

Ertu í stuði núna? Óþarfi að bíða fram á kvöld!

Líklega situr þú núna og það er auðvelt að gera þessar hreyfingar í sitjandi stöðu. Bæði æfingarnar fyrir ökkla og úlnliði.

Á miðvikudagsmorgun kl 09 verður svo bein útsending frá Jakkafatajóga á Facebook! 

Þar förum við í þessar æfingar saman á innan við 5 mínútum. Ekki missa af því. Horfðu í beinni eða þegar þér hentar.

>> Kíktu á Facebook síðu Jakakfatajóga hérna<<

ðkkla

 

Það er bara til eitt  eintak af þér. Farðu vel með það.

 

Aðstoð?

Viltu fá aðstoð kennara? Bókaðu Jakkafatajóga á vinnustaðinn eða komdu í jóga með Eygló á kvöldin í Víkurhvarfi 1, Kópavogi.

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.