Hugleiðing ~ Dropinn

Hugleiðing vikunnar

Þetta er nýr þáttur á blogginu hjá okkur hjá Jakkafatajóga, en um langa hríð höfum við haft á verkefnalistanum okkar að leggja ákveðna hugleiðingu vikunnar inn hjá iðkendum okkar. Nú ætlum við að prófa að hleypa ykkur öllum örlítið nær okkur með því að leggja hugleiðinguna líka út á vefinn. Þá er líka auðveldara að rifja hana upp og gera hana oftar. Við reynum að hafa þetta eins einfalt og hnitmiðað og hægt er hverju sinni.

Dropinn í hafinu – hafið í dropanum

Í síðustu viku snerist hugleiðing vikunnar um  þakklæti í garð okkar sjálfra.

Lesa meira um hugleiðingu síðustu viku hér: Þín vellíðan, þín ábyrgð

hugleiðing

Hugleiðing vikunnar í þetta sinn er ætluð til að auka þakklæti í stærra samhengi en  til okkrar sjálfra. Markmiðið er að vekja til umhugsunar þá þætti sem allt fólk á sameiginlega. Við erum líkari hverju öðru innst inni, jafnvel líkari en við kærum okkur um að viðurkenna!

Innst inni erum við öll eins í grunninni og öll að leita að því sama; öryggi, samskiptum og hamingju.

Með vísan í millifyrirsögnina, þá táknar hafið mannfjöldann allan en dropinn táknar þig. Dropinn er úr hafinu og hefur eitthvað úr hafinu í sér, en endurspeglar ekki allt hafið í heild sinni. Það er samt eitthvað af hafinu í hverjum einasta dropa.

Á þennan hátt erum við einnig öll lík, en ekki að öllu leiti.

hugleiðing

 

Stutt æfing

Þú getur gert þessa æfingu hvar og hvenær sem er, jafnvel í strætó eða á biðstofunni hjá lækninum!

  • hallaðu augunum aftur
  • dragðu djúpt andann og andvarpaðu
  • leiddu hugann að 1-3 jákvæðum atriðum hjá þér
  • leiddu hugann að jákvæðum atriðum hjá fólkinu sem er í kringum þig akkúrat núna
  • leiddu hugann að jákvæðum atriðum hjá fólki sem þú þekkir en er fjarri akkúrat núna
  • leiddu hugann aftur að þér
  • dragðu djúpt að þér andann og andvarpaðu
  • opnaðu augun

Láttu mig endilega vita hvernig gengur!

Eygló Egils,

eyglo@jakkafatajoga.is

 

 

 

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.