Bók sem breytti lífi mínu

Bók er gulls í gildi

Ekki ástæðulausu að við Íslendingar eigum málsháttinn: blindur er bókarlaus maður.

Fyrir mér eru bækur leið til að ferðast um í tíma og læra um sögu, eða spá fyrir um framtíðina. Lestur er einnig frábær leið til að læra um nýtt efni og halda huganum skörpum og klárum.

Síðustu árin hef ég fært mig meira yfir í hljóðbækur og nota ég þá mest Amazon forritið Audible til að spila bækurnar, en ef bókin kveikir hjá mér sérstakan áhuga þá kaupi ég hana einnig á prenti.

Neðangreindar bækur hafa allar breytt viðhorfi mínu til lífsins á einn eða annan hátt. Þær voru fullkomnar á þeim tímapunkti sem ég las þær, en þroskinn heldur áfram og bækur sem einu sinni töluðu til mín, ná ekki endilega til mín í dag. Það á til dæmis við um fyrstu bókina sem ég tel upp hér að neðan.

Bækurnar tel ég upp, nokkurnveginn í þeirri röð sem ég las þær. Mikill munur er á fyrstu og síðustu bókinni og er því hægt að sjá hvernig ferðalagið hefur togað mig smám saman í ákveðna átt.

Hafir þú áhuga á að ná þér í einhverja af bókunum á listanum er nóg að smella á myndina af bókinni og þá ertu leidd/ur beint inn í vefverslun Amazon þar sem þú getur gengið frá kaupum.

Það er von mín að þú hafir not af yfirferðinni og getir nýtt þér mína úttekt til að finna bækur sem henta þér á þeim stað sem þú ert, í þínu ferðalagi.

-Eygló Egils 

Eygló

#ómetanlegt

Fyrsta bókin sem ég hef gefið út, og nú fáanleg á Amazon kindle.

Þessi bók inniheldur leiðbeiningar um hvernig má auka núvitund í daglegu lífi. Textinn inniheldur bæði núvitundar- og jógaæfingar ásamt dæmum um ómetanlegar stundir í hversdagslífinu sem flestir kannast við. Bókin leiðir lesandann í gegnum heilan dag og býður upp á æfingar sem falla vel að tímalínu dagsins, þannig er einfalt að bæta þeim inn í daglegt skipulag.

Ég er stundum spurð að því hvað núvitund sé eiginlega. Einfaldasta útskýringin er; að bæta athygli og einbeitingu í daglegu lífi. Að upplifa til fullnustu ákveðna stund, án þess að hafa of miklar áhyggjur af framtíðinni eða dvelja við orðinn hlut sem ekki fæst breytt.

bók

The Alchemist

Fyrsta bókin sem ég las sem innihélt eitthvað um andleg málefni. Samt er hún ekki einu sinni endilega andleg fyrir þá sem eru ekki að „leita“ að því í þessum texta. Hún hafði mikil áhrif á mig og ég man að ég grét yfir henni í lokin. Höfundurinn er þekktur fyrir að flétta andleg málefni inn í sögur sínar.

Þessa bók las ég 2007.

Meira um Paulo Coelho hér.

bók

The Secret

Bækur um lögmál aðdráttaraflsins eru margar og mismunandi, en þessi er sennilega sú allra aðgengilegasta og líklega sú sem flestir kannast við. Þessi bók opnaði glugga fyrir mig inn í heim lögmálsins og kveikti reyndar fleiri spurningar en hún svaraði. Sem gerði það að verkum að ég dýfði mér í fjöldann allan af bókum sem fjalla um sama efni.

Þær bækur hefði ég sennilega aldrei fundið nema afþví ég byrjaði á þessari. Þessa bók las ég fyrst 2009 og svo aftur 2016 og þá „kveikti“ ég fyrst almennilega á umfjöllunarefninu. Ég hef líklega lesið hana oftast af öllum bókum og einnig horft á myndina, en hún er aðgengileg á Netflix streymisveitunni.

bók

Emotional Intelligence

Þessi bók kom út löngu áður en tilfinningagreind var almennt viðurkennd eða álitin mikilvæg. Síðan þá hafa margar bækur verið skrifaðar um þetta efni. Höfundurinn er frumkvöðull á sínu sviði.

Betri skilningur á hegðan, viðbrögðum og samskiptum var það sem ég tók úr þessari bók. Aðferðirnar við uppeldi og samskipti við börn eru líka merkilegar og ég man að ég hugsaði: Þessa bók ættu allir í kennaranámi að lesa til að geta tileinkað sér þessar frábæru aðferðir. Seinna komst ég svo að því að þessi bók er skyldulesning í öllu kennaranámi á íslandi.

bók

The Paleo Solution

Þessa bók las ég um jólin 2014 og í upphafi árs 2015 breytti ég algjörlega um lífsstíl hvað mataræði varðar. Þessi bók sjokkeraði mig svo svakalega og benti á svo augljósar (að mínu mati) staðreyndir og lausnir að ég fann mig knúna til að fylgja þeim leiðbeiningum sem bókin býður upp á.

Hef aldrei litið um öxl eða fundið þörf til að hætta við þessa breytingu.

Enn þann dag í dag fylgi ég viðmiðum bókarinnar um af mínu daglega mataræði.

bók

Man’s search for meaning

Höfundur þessarar bókar finnur lífi sínu tilgang og voninni farveg meðan hann er fangi innan veggja ömurlegra búða Nasista í seinna stríði. Hann kemst í gegnum ömurlegheitin og spyr sig í sífellu „hvað get ég fært lífinu?“. Í stað þess að krefjast einhvers frá lífinu, eins og hann eigi eitthvað inni.

Þessi stórmerkilega frásögn setur líf, lífsgæði og umkvörtunarefni nútímafólks í hressilegt samhengi.

bók

Why We Sleep

Bókin sem breytti viðhorfi almennings til svefns. Einu sinni þótt töff að sofa lítið, nú vitum við að svefn er eitthvað það dýrmætasta sem við getum veitt bæði líkama og huga.

Höfundur segir í bókinni að þreyttur ökumaður sé hættulegri í umferðinni heldur en drukkinn ökumaður eða undir áhrifum fíkniefna. Afhverju segir hann það? Jú, sá sem er undir áhrifum stígur seint á bremsuna, sá sem er sofandi gerir það alls ekki.

bók

Becoming Supernatural

Vísindin eru nú loksins að sanna það sem jógarnir hafa haldið fram í árþúsund!

Hin mögnuðu áhrif hugleiðslu og öndunaræfinga gegna miklu hlutverki í þessari bók og allt í einu verða hin dulmögnuðu áhrif jóganna færð yfir í tölur og staðreyndir.

Höfudurinn, Dr. Joe Dispenza hefu skrifað nokkrar bækur um þetta efni, en þetta er sú allra nýjasta.  Hann er í grunninn menntaður Kírópraktor. Þegar hann var ungur slasaðist hann illa í hjólaslysi og honum var sagt að hann þyrfti að fara í mjög brútal aðgerð á hrygg og samt myndi hann jafnvel aldrei ganga aftur.

Í stuttu máli, þá fór hann aldrei í aðgerðina, heldur notaði mátt hugans. Hann lofaði sjálfum sér því að ef hann gæti læknað sig, þá myndi hann verja það sem eftir væri ævinnar í að kenna öðrum þessa tækni. Það er akkúrat það sem hann er að gera í dag.

Smelltu hér til að fræðast meira um Dr. Joe.

bók

The Law of Attraction

Þessi bók er fyrir þá sem vilja fá tækifæri til að undrast með opnum huga. Hvert er aflið sem við sjálf og náttúran stjórnast af. Hvað er „ég“, „þú“ og allt sem á milli okkar er.

Vel út fyrir kassann fyrir flesta. En ef The secret opnaði á frekari forvitni hjá þér, gæti þetta verið bókin fyrir þig.

Þessa bók las ég upp til agna 2017. Hafði reynt við hana nokkrum árum áður, en náði engri tengingu við hana þá.

bók

Conversations With God

Endalaus tækifæri til að undrast á síðum þessarar bókar.

Afhverju ættum við að vita allt?

Þó að við getum ekki sannað ýmsar tilgátur nú þegar, er ekki þar með sagt að þær séu ekki sannar.

bók

Atomic habits

Einfaldar leiðir til að einfalda lífið og nálgast árangur eins og þú hefur skilgreint hann fyrir þig.