Hér hef ég tekið saman nokkrar teygjur sem nýtast öllu íþróttafólki en þó sérstaklega þeim sem hjóla eða hlaupa mikið. Æfingarnar eru sérstaklega valdar með það að leiðarljósi að liðka svæðin sem eru undir mestu álagi í eftir langa túra.
Hægt er að fara í gegnum allar æfingarnar á innan við 20 mínútum og mæli ég með að gera það strax eftir æfinguna, á meðan líkaminn er enn heitur.
Engrar sérkunnáttu er þörf til að gera æfingarnar, það þarf engan búnað til að framkvæma þær og auðvelt að gera þær bæði úti og inni. Að vísu eru tvær æfingar þar sem reiknað er með stól, en ef þú ert úti, er kannski hægt að finna grindverk eða stóran stein til að setjast á.
Góða skemmtun og gangi þér vel!
Eygló Egilsdóttir, Jógakennari & Metabolicþjálfari.
Æfingaröðin
Æfingarnar fara yfir öll helstu liðamótin og er unnið frá toppi og niður.
Þú getur gert allar æfingarnar í þessari röð, eða valið þær sem þér henta best og gert þær í þeirri röð sem þér hentar.
Áður en þú byrjar
Andardrátturinn er góður mælikvarði á það hvernig okkur gengur með æfingar eins og þessar. Ef þú finnur að:
- þú heldur inni í þér andanum
- andar hratt
- andar grunnt
þá ertu líklega í of djúpri (og óþægilegri) stöðu. Losaðu þá aðeins um stöðuna, og gefðu þér meiri tíma til að mýkja þig.
