Áramót í hverri viku!

áramótHvernig gengur að halda heitið sem þú settir þér um áramót?

Afhverju heltast svo margir úr lestinni með að halda áramótaheit? Ég vinn í líkamsræktarstöð og sé þetta á hverju ári… stöðvarnar fyllast af nýjum iðkendum í byrjun janúar og aftur í byrjun september. Allt í einu eru öll tækin á gólfinu í notkun og ekki hægt að þverfóta í hóptímum fyrir nýja duglega fólkinu – sem er frábært! Allir velkomnir á stöðvarnar og í heilsuræktina!

Hvað gerist svo … jú um það bil sex vikum seinna?  Þá hverfa um það bil 90% þeirra einstaklinga sem byrjuðu af svo miklum krafti.

Hvað gerist um áramót?

Afhverju höldum við þetta ekki út?

Eftir nokkuð litla og óvísindalega könnun undanfarnar vikur sýnist mér að einhverskonar niðurstaða sé fengin í málið. Það virðist sem svo að þegar fólk hrasar í fyrsta skipti, það er að það fylgir ekki þeim gullna vegi sem lagt var upp með í heitinu góða, að þá hrynji allt saman. Eins og dómínó, fyrsta hrösunin og  „þá er alveg eins gott að hætta þessu bara“.

Hins vegar má snúa á hugann og hugsa þetta örlítið léttara og ímynda sér  áramót í hverri viku – því hvað gerist um áramót? – jú ákveðið uppgjör, fortíðin skiptir ekki máli og við erum tilbúin að ganga til móts við nýja tíma með nýjum krafti. Óskrifað blað. Með kompásinn rétt stilltan.

Fleiri áramót!

Héðan í frá verður nýtt óskrifað blað hjá mér, og öllum þeim sem ég þjálfa, alla sunnudaga! Og það er ekkert að því að setja sama „áramóta“heit og síðast 🙂

Gerðu ráð fyrir hrösun og byrjaðu aftur. Því þegar allt kemur til alls, þá skiptir ekki máli hvort þú hrasar (því það mun sannarlega gerast). Heldur hvort, og þá, hvernig þú stendur upp aftur!

Eygló

 

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.