Áskorun vikunnar: Mjaðmahringir
Mjaðmahringir! Hvað er nú það?
Engar áhyggjur, það þarf enga húlla-hringi í þessa æfingu!
Mjaðmahringir
Í mjöðmunum eru stærstu liðamót líkamans og jafnframt þau stirðustu. Það er því mjög gott að eiga nokkrar „go-to“ æfingar þegar kemur að mjaðmasvæðinu. Þetta er ein af þessum góðu æfingum sem er gott að grípa í til dæmis þegar við er að bíða …
- eftir að prentarinn klári að prenta skjalið okkar
- eftir að kaffið renni í bollann úr vélinni
- osfrv…
Skref fyrir skref
1. Fótstaða
Hafðu rúmlega mjaðmabil á milli fóta og forðastu að læsa hnjánum alveg. Stattu jafnt í báða fætur allan tímann.
2. Hendur
Hafð hendurnar á mjöðmum. Axlir slakar allan tímann.
3. Hreyfingin
- Byrjaðu á að þrýsta mjöðmum eins langt og þú getur til hægri
- Þrýstu svo mjöðmum afturá bak
- Svo þrýstir þú mjöðmum út til vinstri
- Að lokum þrýstir þú mjöðmum vel fram
Þegar þú ýtir mjöðmunum út í allar þessar fjórar áttir til skiptist myndast hringhreyfing á mjöðm.
Leyfðu þér að byrja á litlum hreyfingum svo getur þú smá stækkað hreyfingarnar eftir því sem þú gerir fleiri hringi og vöðvarnir mýkjast.
Ímyndaðu þér að þú sért að teikna stóran hring út í loftið með mjöðmunum.
Ef þú kemst stóra hringi gætirðu jafnvel fundið teygju:
- aftan á lærunum
- inann á lærunum
- framaná lærum / nára
Gerðu á bilinu 5-10 hringi í aðra áttina og skiptu svo um átt og gerðu hreyfinguna í hina áttina.
4. Brak og brestir?
Stundum þegar við gerum þessa æfingu þá er eins og það braki inni í mjöðmunum á okkur! Ef þú finnur það gerast hjá þér, skaltu ekki hafa áhyggjur. Það er bara spenna að losna og kannski höfum við komið af stað einhverri smá hreyfingu á liðböndum hjá okkur.
5. Og alltaf …
… í takt við öndun!
Um leið og þú heldur inni í þér andanum eða rembist, er það merki um að þú ert komin/n aðeins of langt inn í stöðuna miðað við líkamlega getu dagsins í dag.
Berum virðingu fyrir ástandi líkamans og gerum æfinguna eins og okkur þykir best.
Nú er komið að þér! Hring eftir hring …
Mjaðmahringir eins og allar æfingar, skilar mestum árangri ef þú framkvæmir hana reglulega. Best er að gera æfinguna daglega og langbest er að tengja æfinguna við eitthvað sem þú gerir nú þegar. Eitthvað sem er nú þegar partur af þínum venjum.
Ég skora á þig að standa upp núna og framkvæma þessa einföldu æfingu. Allt sem þarf til er vilji og nokkur andartök!
Það er bara til eitt eintak af þér. Farðu vel með það.
Aðstoð?
Viltu fá aðstoð kennara? Bókaðu Jakkafatajóga á vinnustaðinn eða komdu í jóga með Eygló á kvöldin í Víkurhvarfi 1, Kópavogi.