Einu sinni nörd?
“Þær sögðu að ég væri kannski nörd.”
Svona byrjaði áhugavert samtal sem ég átti við bráðvel gefna og námsfúsa unga stúlku. Hún deildi með mér áhyggjum sem hún hafði af stöðu sinni innan bekkjarins vegna þess að henni hafði nýlega verið tjáð af einni bekkjarsystur sinni að hún væri sennilega nörd.
Hún var sjálf ekki alveg nákvæmlega viss um hvað orðið þýddi, en var nokkuð viss um að það myndi hafa neikvæð áhrif á vinskapinn við hinar stelpurnar í bekknum. Ummælin féllu skömmu eftir að nemendurnir fengu einkunnir úr samræmdum prófum.
Við ræddum málið, ég spurði hana hvað hún héldi að orðið þýddi og þar sem það var fátt um svör, spurði hún strax til baka hvort ég vissi hvað orðið þýddi.
Ég sagði henni að ég héldi að þetta orð væri notað um þá einstaklinga sem væru búnir að uppgötva hvað þeim þætti skemmtilegast að gera. Þeim þætti það svo skemmtilegt að þau reyndu yfirleitt að verja sem mestum tíma í þetta og væru líka tilbúin að fórna ýmsu öðru í staðinn. Þá væri einnig líklegt að þessir einstaklingar yrðu sérfræðingar í því sem þeim þætti skemmtilegast og gætu þá ef til vill leyft sér að vinna við það þegar þau yrðu stór. Þau yrðu jafnvel best í heimi!
Það lifnaði yfir stúlkunni, hún brosti og spurði hvort Ronaldo væri þá nörd í fótbolta.
-já, auðvitað!
Nörd. og þú bjargar heiminum!
Svo fórum við yfir málin og ég talaði um að ég væri nörd í jóga, jóganörd. Hún sagðist þá vera stjörnunörd. Enda hefur hún mikinn áhuga á himinhvolfinu og þess vegna finnst henni gaman að lesa og læra. Hver veit. Kannski verður hún stjarneðlisfræðingur eða uppfinningamaður einn daginn. Ef til vill mun hún gerast aðstoðarmaður Elon Musk og þannig bjarga mannkyninu með því að flytja okkur öll til Mars… Hver veit.
Kennum börnum endilega að vera nördar. Kennum þeim gagnrýna hugsun, að vera sjálfstæð og sterk. Svo þau mótist ekki af öflum sem um tíma geta virkað stærri en þau sjálf.
-Eygló
ítarlesefni um skilgreiningu á orðinu nörd:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5959
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3621
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=647