Hafðu áhrif á streituna

Það er auðvelt að hrífast með í hraða nútímalífs. Áreiti er um allt og atriðin ótalmörg sem grípa athygli okkar frá því sem skiptir máli og því sem við ættum að beina athyglinni að. Við eigum það til að detta í gryfju fjölverkavinnslu (e. multitasking) sem gerir okkur mjög upptekin, en það að vinna verkin skilar ekki endilega miklum árangri eða ánægju. Hafðu áhrif á streituna með því að tileinka þér góðar venjur og halda þig við þær. 

Reyndar sýna rannsóknir fram á að það er ekki til neitt sem heitir fjölverkavinnsla, við getum í raun ekki haldið athygli við marga hluti í einu. Við erum einungis fær um að beina athygli að einum hlut í einu og þegar við teljum að við séum að fjölverkavinna, þá erum við í raun bara að skipta því sem fær athygli út mjög ört. Verkin í kringum okkur skiptast á að fá athygli okkar í nokkur andartök í hvert sinn og það lækkar greindarvísitölu okkar meira heldur en kannabisreykingar.

Ýmsir hlutir eða aðstæður rífa í athyglina okkar og geta skapað streitu í líkamanum, allt frá gluggapóstinum yfir í ökumanninn sem svínaði á okkur í morgunumferðinni eða krefjandi verkefninu í vinnunni.

 

Hafðu áhrif strax

Við getum ómögulega fjarlægt alla streituvaldana, en við getum haft eitthvað örlítið um það að segja hvaða áhrif þeir fá að hafa á okkur; líf, líðan og heilsu. Því sýnt hefur verið fram á að streita hefur ekki bara mjög neikvæð áhrif á heilsu okkar, heldur líka á börnin okkar og barnabörn.

Með einföldum jóga- og núvitundaræfingum má raunverulega minnka streituáhrifin. Byrjaðu á því að anda djúpt að þér og aftur frá. Finndu hvernig loftið fyllir lungun og hvernig bringa og kviður þenjast út við innöndun og falla aftur saman á fráöndun.

Svona, nú hefur þú dregið athyglina að fullu inn í núið. Flóknara þarf það ekki að vera.