7 ávinningar hugleiðslu

Hugleiðsla er ævaforn tækni sem á uppruna sinn á Indlandi. Hugleiðsla er upphaf allrar jógaiðkunar og allar jógaæfingar sem hafa þróast í gegnum tíðina. Hér fyrir neðan eru  7 ávinningar hugleiðslu listaðir upp. Ef þú hefur efast um gildi og tilgang hugleiðslu, þá verður efanum nú vonandi eytt. 

En hvernig hefur hugleiðsla áhrif á okkur og hvaða mögulega ávinninga gæti regluleg ástundun haft í för með sér þegar aðalinntak æfingarinnar er að sitja kyrr og gera ekkert?

Staðreyndin er sú að hugleiðsla hefur margvíslega kosti sem eru svo stórkostlegir að það má segja að regluleg ástundun hennar muni breyta lífi þínu til hins betra.

Í grunninn mun hugleiðsla hjálpa iðkandanum að vera næmari á sjálfan sig á þann hátt að hann kemur strax auga á líkamleg einkenni sem eru úr jafnvægi sem eiga við um eðlilegt ástand. Þetta er mikill kostur og nýtist til að viðhalda betur eigin heilbrigði og heilsu.

 

1.Hugleiðsla róar taugarnar

Hugleiðsla virkjar þann hluta ósjálfráða taugakerfisins sem róar likamann. Sýnt hefur verið fram á að við hugleiðslu lækkar blóðþrýstingur, það hægist á púlsi og magn streituhormóna í blóðinu minnka (Adrenalín og Kortísól). Það hægist á öndun og melting batnar auk þess sem ónæmiskerfið styrkist. Semsagt; hjálpar líkamanum á margan hátt að starfa betur.

 

2. Hugleiðsla hjálpar til við þyngdartap

Ein helsta ástæða ofþyngdar er hugsunarlaust ofát; þegar við borðum á meðan athyglin hvílir á einhverju öðru – til dæmis sjónvarpsþætti. Með hugleiðslu þjálfum við athyglina á þann hátt að hún hvíli á því sem við gerum. Þannig borðum við með meiri meðvitund og hættum áður en við verðum búin að borða yfir okkur.

 

3. Hugleiðsla bætir svefn

Eins og var nefnt í punkti nr.1, þá virkjast sá hluti ósjálfráða taugakerfisins sem róar líkamann við reglubundna hugleiðslu. Það sem einnig gerist er að hinn hraðvirki hugur okkar róast og við lærum að sleppa taki á hlutum í stað þess að drekkja okkur með hugsunum – sem oftar en ekki vakna þegar við leggjumst á koddann.

 

4. Hugleiðsla eykur gleði og friðsæld

Í hugleiðslunni fáum við tækifæri til að skoða vandamál okkar frá öðru sjónarhorni, þetta getur hjálpað til við að losa okkur við óþarfa streitu og neikvæðni. Við eigum í kjölfarið auðveldara með að sleppa taki á hlutum og sjá stóru myndina.

 

5. Hugleiðsla eykur framleiðni

Með hugleiðslu höldum við athyglinni betur í núlíðandi stund og við verkefnin okkar. Með öðrum orðum; við einbeitum okkur betur! Hugsunin er skýrari, við tökum betri ákvarðanir og klárum verkin hraðar og betur. Hugleiðslan skerpir því hugann og er einmitt mikilvæg þegar við höfum lítinn tíma og erum undir miklu álagi

 

6. Hugleiðsla eykur andagift og sköpunargáfu

7 ávinningar hugleiðslu

Með því að sjá hlutina í víðara samhengi og með því að taka okkur sjálf ekki of alvarlega öðlumst við afslappaðra viðhorf til okkar sjálfra og lífsins. Þetta veitir okkur ekki síst frelsi í huganum til sköpunar, oftar en ekki flæða hugmyndirnar betur til okkar í svona afslöppuðu ástandi heldur en þegar við meðvitað reynum að knýja fram nýjungar undir þvingun.

 

7. Hugleiðsla kennir okkur að við erum ekki hugsanir okkar

Það kann að koma á óvart, en hugsanir okkar eru ekki innsti kjarni okkar. Hugsanir okkar eru einmitt það sem hylur okkar innsta kjarna. Þegar við náum að þagga niður og hægja á þessum innri röddum og hugsunum, þá er hulunni svipt af okkar innra ástandi, sem er miklu friðsælla og sáttara en hinn sífellt sveimandi hugur.

Hugleiðslan kennir okkur að skoða þessar hugsanir frá hliðarlínunni og reyna ekki að samsamast þeim of mikið. Til dæmis ef við upplifum reiðitilfinningu, þá er það einmitt bara það sem er að gerast. Við upplifum tilfinninguna: reiði, en erum ekki endilega reið.

 

Lauslega þýtt úr grein frá Intentioninspired.com