Áskorun vikunnar: jafnvægi

Jafnvægisæfingar eru margar og mikilvægar í jógaiðkun. Þær eru til í öllum myndum og útgáfum, einfaldar og flóknar. Hér ætlum við að einblína á þessar einföldu útgáfur sem allir eiga auðvelt með að gera og njóta góðs af.

Hvað og hvernig

Jafnvægi er einmitt eitt af því fyrsta sem við töpum þegar aldur færist yfir. En í raun er sáraeinfalt að halda góðu jafnvægi út ævina, með því að setja litlar æfingar inn í daglega rútínu okkar. Auðvelt er að byggja upp jafnvægi og auðvelt að halda því við. Frasinn: „það er aldrei of seint að byrja“ á því einstaklega vel við hvað jafnvægisæfingar varðar.

Jafnvægi í daglegu lífi

Sjón og líkamsstaða hefur mikið að segja um það hversu vel okkur gengur með jafnvæsiæfingar. Það skiptir sérstkalega miklu máli þegar við erum að byrja og byggja upp jafnvægisþol að passa þessa þætti

1. Sjón

Horfðu á fastan punkt fyrir framan þig. Horfðu á eitthvað sem ekki hreyfist og eitthvað sem pirrar ekki augun (eins og til dæmis skært ljós). Hafð augun á þessum punkti allan tímann meðan þú heldur jafnvægisæfingunni.

2. Líkamsstaða

Réttu úr þér og reyndu jafnvel að lengja hrygginn aðeins áður en þú byrjar æfinguna. Þannig nærðu að virkja djúpvöðva í kringum hrygg, sem taka mikinn þátt í æfingunni.

Hafðu axlir slakar og hendur niður með síðum, eða á mjöðm.

3. Öndun

Haltu önduninni eðlilegri allan tímann, reyndu að forðast að halda inni í þér andanum (þetta er það sem flestir klikka á til að byrja með).

jafnvægi

4. Lyfta

Lyftu nú öðrum fætinum upp frá gólfinu (þarf ekki að lyfta hátt).

Dreifðu þunganum vel yfir alla ilina á fætinum sem þú stendur í.

Reyndu að forðast að læsa alveg hnénu á fætinum sem þú stendur í.

5. Hreyfa

Prófaðu að hreyfa ökklann á fætinum sem þú ert búin/n að lyfta upp.

Hreyfðu: upp/niður og í hringi

 

6. Hálf mínúta

Haltu stöðunni í um það bil hálfa mínútu og endurtaktu svo alveg eins fyrir hina hliðina. Það þarf ekki nema hálfa mínútu á hvorri hlið, einu sinni á dag til að þjálfa upp gott jafnvægi.

 

Nú er komið að þér! Gerðu jafnvægi að vana

Ef þú ert með lítið jafnvægi, þá hvet ég þig eindregið til að vinna í því. Þú verður fljót/ur að ná árangri ef þú gerir þessa æfingu reglulega. Best er að gera æfinguna daglega og langbest er að tengja æfinguna við eitthvað sem þú gerir nú þegar. Eitthvað sem er nú þegar partur af þínum venjum.

Þess vegna ætla ég að hvetja þig til að tengja þessa æfingu við tannburstun. Því það er eitthvað sem við höfum flest öll vanist að gera í það minnsta einu sinni á dag, og flestir kannski tvisvar á dag. Á meðan þú burstar að morgni getur þú staðið á öðrum fæti og á meðan þú burstar að kveldi stendur þú á hinum fætinum! Getur ekki klikkað!

Ertu í stuði núna? Þú þarft ekki einu sinni að bíða eftir tannburstun

Líklega situr þú núna!? Ég skora á þig að standa upp og framkvæma þessa einföldu æfingu. Allt sem þarf til er vilji og nokkur andartök!

Það er bara til eitt  eintak af þér. Farðu vel með það.

 

Aðstoð?

Viltu fá aðstoð kennara? Bókaðu Jakkafatajóga á vinnustaðinn eða komdu í jóga með Eygló á kvöldin í Víkurhvarfi 1, Kópavogi.

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.