Vöðvabólga?

Vöðvabólga, er það eitthvað sem þú kannast við?

Við erum líklega flest vel meðvituð um mikilvægi þess að hreyfa axlirnar og efra bak, enda er það oftar en ekki fyrsti staðurinn sem við finnum illa fyrir við langvarandi álag eða ranga líkamsstöðu. En afhverju verður þetta svæði svo oft svona viðkvæmt og hvað er eiginlega vöðvabólga?

Brjóstbak – efri hluti baksins

Við eigum það til að einblína um of á axlir þegar við hugum að því að losa vöðvabólgu, en einmitt þar koma einkennin fram. Hins vegar er orsökin fyrir stífum öxlum oftar en ekki bara grjótstíft brjóstbak. Það þýðir að þegar brjóstbakið hreyfist ekki eins og það á að gera og getur, þá leitar hreyfingin inn í önnur svæði sem eru ekki í stakk búin að taka við hreyfingunni sem um ræðir, í sumum tilfellum eru það axlir, í öðrum tilvikum er það mjóbak.

Vöðvabólga verður til þegar óeðlileg hreyfing / eða kyrrstaða verður of lengi á ákveðnu svæði í líkamanum. Ekki er um eiginlega bólgu að ræða heldur má frekar líkja þessu ástandi við frosinn vöðva. Ekkert blóðflæði fer í gegnum stífa svæðið og markmiðið er að auka blóðflæðið og hjálpa þannig líkamanum að lækna sjálfan sig.

Vöðvabólga burt!

Standandi kattarteygja

  • Anda inn: fettu efri hluta baks eins og þú getur
    • þrýstu herðablöðum saman
    • þrýstu olnbogum aftur
    • þrýstu bringubeini fram
    • horfðu fram eða upp
  • Anda út: gerðu kryppu á bak
    • þrýstu herðablöðum í sundur
    • þrýstu olnbogum saman að framan
    • horfðu í átt að nafla

vöðvabólga

 

Golfarinn

  • Uppsetning
    • stattu með mjaðmabil á milli fóta
    • hallaðu þér aðeins fram frá mjöðmum
    • haltu um ímyndaða kylfu með höndunum
  • Anda inn
    • Lyftu hægri handlegg eins hátt upp og þú getur
    • þrýstu hægra herðablaði í átt að hrygg
  • Anda út
    • Slakaðu handlegg aftur rólega niður
  • Endurtaktu fyrir hina hliðina

vöðvabólga

 

Fleiri æfingar fyrir vöðvabólgu vesen

Youtube rás okkar er full af stuttum æfingum sem hægt er að gera hvar og hvenær sem er. Kíktu á vídjóið fyrir neðan til að sjá æfingar fyrir brjóstbak eða smelltu hér til að fá fleiri myndbönd. Eygló er sífellt að bæta við myndböndum og þú getur líka lagt inn beiðni á óskalista yfir æfingar / svæði sem þú vilt að hún tækli! >Sendu skilaboð hérna<

Ekki gleyma því að anda djúpt. Ef þú upplifir eitthvað sem stóra hindrun, þá er það kannski tækifæri til að læra eitthvað nýtt.

Ef einhver óskar sér til dæmis meiri þolinmæði, þá er ólíklegt að viðkomandi vakni þannig einn daginn. 

Það er líklegra að viðkomandi komi auga á tækifæri til að þroska með sér þolinmæði. Stundum felst tækifærið í verkefni sem gæti reynt á. Og akkúrat þar liggja töfrarnir og mesti lærdómurinn.

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.