Hugleiðing ~ Þín vellíðan, þín ábyrgð
Hugleiðing vikunnar
Þetta er nýr þáttur á blogginu hjá okkur hjá Jakkafatajóga, en um langa hríð höfum við haft það verkefni að leggja til eina ákveðna hugleiðingu vikunnar hjá iðkendum okkar. Nú ætlum við að prófa að hleypa ykkur öllum örlítið nær okkur með því að leggja hugleiðinguna líka út á vefinn. Þá er líka auðveldara að rifja hana upp og gera hana oftar. Við reynum að hafa þetta eins einfalt og hnitmiðað og hægt er hverju sinni.
Þín vellíðan í þínum höndum
Hvort sem þú álítur það góðar fréttir eða slæmar, þá er þín vellíðan, hamingja og núverandi staða afrakstur af þínum verkum og ákvörðunum. Allt það sem þú hefur gert (eða ekki gert) hefur valdið því hvar þú ert stödd eða staddur í dag.
Það slæma í þessu er, að ef þér líður eins og þú sért ekki á góðum stað, þá er það þín sök.
Það góða í þessu er að þú hefur fullt vald til að koma þér úr þeim aðstæðum sem þú ert í og inn í aðstæður sem þér þykja fýsilegri. Það er aldrei of seint að snúa við blaðinu.
Vellíðan og hamingja er ákvörðun
Komdu þér upp hamingju-venjum. Vendu þig á að einblína á það sem þér þykir jákvætt við hvern atburð, jafnvel þó eitthvað við atburðinn hugnist þér ekki.
Æfing – 2 mín max
- Lokaðu augunum
- Andaðu djúpt
- Finndu hvernig það slaknar á öllum líkamanum
- Leyfðu þér að hugsa um 3 atriði sem þú ert ángægð/ur með og getur hrósað þér fyrir
- ef þér dettur ekkert í hug geturðu notað: að lesa þennan pistil. Svona eykur þú núvitund, þakklæti og vellíðan hjá sjálfri/sjálfum þér 🙏
- Smelltu nú einum litlum gulum miða á tölvuskjáinn þinn eða klósettspegilinn og teiknaðu stjörnu á miðann
- hann mun hjálpa þér að rifja upp þessa æfingu ⭐
Láttu mig endilega vita hvernig gengur!
Eygló Egils,
eyglo@jakkafatajoga.is