Leiða hugann…
Að leiða hugann er einfalt, en ekki endilega auðvelt. Til einföldunar má segja að hugleiðsla sé ákveðið form einbeitingar þar sem við beinum athyglinni að einu atriði í ákveðinn tíma. Atriðið getur verið allt frá okkar eigin andardrætti yfir í sjónmyndanir. Öfugt við það sem margir halda, þá snýst hugleiðslan ekki um það að hugsa ekki neitt!
Leiða hugann eins og að teyma hest
Byrjaðu á því að prófa eftirfarandi æfingu:
Sjáðu fyrir þér hvítan svan synda eftir tjörn. Vatnið er alveg kyrrt og gárast varla þegar svanurinn syndir mjúklega áfram. Svanurinn lítur hvorki til vinstri né hægri, heldur bara áfram út í hið óendanlega. Hugsaðu nú áfram um þennan svan á meðan þú telur afturábak frá 100.
Hvernig gekk?
Flestir óreyndir hugleiðsluiðkendur ná ekki að telja niður fyrir 96 vegna þess að hugurinn reikar fljótlega frá svaninum og yfir á eitthvað allt annað! Ekki örvænta, ef þér gekk illa þá merkir það að þér mun fara mikið fram við æfingu! 🙂
En afhverju ættum við að stunda hugleiðslu?
Við stundum hugleiðslu fyrst og fremst til að auka hæfni hugans til að halda einbeitingu. Ímyndaðu þér að hugurinn sé eins og villihestur; villtur, kraftmikill og lætur illa að stjórn. Með tamningu má breyta þessum kraftmikla villihesti í skjótan veðhlaupahest sem getur hlaupið á ljóshraða og nákvæmlega í þá átt sem þú vilt!
Án einbeitingar myndum við stöðugt hamra á þumalinn í staðinn fyrir naglann.
Æfing í einbeitingu er einmitt mjög mikilvæg í daglegu lífi þar sem ýmisskonar áreiti rífur í athygli okkar hvar sem við erum stödd: lykt af góðum mat, auglýsingaskilti, útvarp, símtal, tölvupóstur, tónlist… og svo mætti lengji telja. Athyglisþjófarnir okkar eru um allt.
Gætum að því hvert við beinum athygli okkar, notum einbeitinguna til að skerpa hugann og munum að athygli er orka, ekki sóa orkunni þinni í óþarfa.
Eygló Egils
Jógakennari og eigandi Jakkafatajóga
ÍAK einkaþjálfari