Áskorun vikunnar: Hliðarteygja / Þríhyrningur

Til eru margar útgáfur af Hliðarteygju eða Þríhyrningi (e. triangle pose) og hér er ein sú allra einfaldasta. Þessi útgáfa er vel til þess fallin að aðstoða okkur við að rísa undir þyngdaraflinu og rétta úr okkur. Við eigum það nefninlega til að slumpast niður í stólunum okkar og skreppa saman eins og harmonikka. Það ættu allir að geta gert þessa einföldu æfingu hvar og hvenær sem er!

Hliðarteygja skref fyrir skref

Eflaust hefur þú farið inn í þessa teygju óafvitandi einhverntíman! Þetta er ekki ósvipað þeim hreyfingum sem við gerum þegar við teygjum úr okkur eftir nætursvefn.

1. Fótstaða

Hafðu rúmlega mjaðmabil á milli fóta, dreifðu þunganum jafnt yfir iljarnar og reyndu að forðast að hafa hnén í alveg læstri stöðu.

2. Hendur og handleggir

Settu hægri lófann á utanvert hægra læri og teygðu vinstri höndina í átt að lofti.

3. Í takt við öndun

  • Innöndun: teygðu vinstri handlegginn örlítið hærra.
  • Útöndun: renndu hægri lófanum niður eftir fótlegg þangað til þú finnur teygju í vinstri hliðinni.
  • Endurtaktu: 2-3 sinnum fyrir þessa hlið áður en þú gerir fyrir hina hliðina


4. Stillt upp við vegg

Til þess að tryggja sem besta líkamsstöðu og mesta hliðarteygju, þá skaltu ímynda þér að þú standir með bakið uppvið vegg. Þrýstu alltaf báðum herðablöðum að þessum ímyndaða vegg allan tímann meðan þú heldur teygjunni.

Þetta þýðir kannski að þú ferð ekki mjög langt inn í hliðarteygjuna, en þú finnur eflaust dýpri teygju!

Þú ættir að geta fundið teygju nánast alveg frá mjöðm upp í handarkrika!

5. Axlir

Reyndu eins og þú getur að slaka á öxlum, þó þú sért að teygja handlegginn í átt að lofti.

6. Og alltaf …

… í takt við öndun!

Um leið og þú heldur inni í þér andanum eða rembist, er það merki um að þú ert komin/n aðeins of langt inn í stöðuna miðað við líkamlega getu dagsins í dag.

Berum virðingu fyrir ástandi líkamans og gerum æfinguna eins og okkur þykir best 🙂

Nú er komið að þér! Vendu þig á góðar teygjur

Hliðarteygja eins og allar æfingar, skilar mestum árangri ef þú framkvæmir hana reglulega. Best er að gera æfinguna daglega og langbest er að tengja æfinguna við eitthvað sem þú gerir nú þegar. Eitthvað sem er nú þegar partur af þínum venjum.

Þess vegna ætla ég að hvetja þig til að tengja þessa æfingu við morgun-rútínuna og það hvernig þú teygir úr þér á morgnana. Þú ert hvort sem er að teygja þig og beygja, því ekki að bæta þessari meðvituðu teygju inn í planið?

Ertu í stuði núna? Óþarfi að bíða fram á næsta morgunn 😉

Ég skora á þig að standa upp og framkvæma þessa einföldu æfingu. Allt sem þarf til er vilji og nokkur andartök!

Það er bara til eitt  eintak af þér. Farðu vel með það.

Aðstoð?

Viltu fá aðstoð kennara? Bókaðu Jakkafatajóga á vinnustaðinn eða komdu í jóga með Eygló á kvöldin í Víkurhvarfi 1, Kópavogi.

Eygló fór sjálf að stunda jóga árið 2008 og má segja að hún hafi kolfallið fyrir áhrifunum sem iðkunin hafði á hana. Strax í janúar 2009 hóf hún svo jógakennaranám hjá Guðjóni Bergmann með það að markmiði að dýpka eigin iðkun. Þó ætlunin hafi upphaflega ekki verið að leggja stund á jógakennslu í kjölfarið, þá hóf hún að kenna reglulega tíma snemma sama ár og með tímanum fór hún að kenna sína eigin tíma undir merkjum Yoga með Eygló. Eygló hefur því stundað jógakennslu frá 2009. Árið 2013 stofnaði hún svo Jakkafatajóga með það að markmiði að koma hreyfingu inn í daglega dagskrá almennings og þannig útrýma kyrrsetukvillum.