Hugleiðing ~ athygli á efninu
Hugleiðing vikunnar
Þetta er nýr þáttur á blogginu hjá okkur hjá Jakkafatajóga, en um langa hríð höfum við haft á verkefnalistanum okkar að leggja ákveðna hugleiðingu vikunnar inn hjá iðkendum okkar. Nú ætlum við að prófa að hleypa ykkur öllum örlítið nær okkur með því að leggja hugleiðinguna líka út á vefinn. Þá er líka auðveldara að rifja hana upp og gera hana oftar. Við reynum að hafa þetta eins einfalt og hnitmiðað og hægt er hverju sinni.
Skýin á himninum
Sjáðu fyrir þér bláan og heiðan himinn.
Sjáðu svo fyrir þér ský hrannast upp, sum stór önnur lítil. En brátt þekja skýin himininn og þú sérð ekki lengur himininn.
í þessari myndlíkingu er hugur þinn himininn og skýin eru hugsanirnar. Með öðrum orðum, þú ert ekki það sem þú hugsar, en þú ert SÁ eða SÚ sem hugsar.
Á hverjum einasta degi fara um það bil 50-70þúsund hugsanir í gegnum höfuðið á hverju og einu okkar. Það er ótrúlega margt í gangi þarna upp og fullt af þessum hugsunum eru bara upplýsingar. Kemur sér til dæmis vel í umferðinni rautt ljós, grænt ljós, kona á hjóli, barn á hlaupahjóli og svo framvegis.
Ergo: við stjórnum ekki öllum hugsunum okkar. EN góðu fréttirnar eru að við stjórnum því sjálf hvaða hugsanir fá MESTA athygli 🙂 Þú mátt velja úr öllum þessum 70þúsund.
En fyrst skulum við aðeins greina á milli og hægja á hugsununum og reyna að glitta í bláa himinn þarna á bakvið … ok?
Teldu andardrættina
- Hver andardráttur er ein innöndun og ein fráöndun.
- Teldu fjölda andardrátta hjá þér.
- Ef þú missir einbeitinguna og ferð að hugsa um eitthvað annað, þá skaltu mjúklega draga athyglina aftur að talningunni og byrja upp á nýtt.
- gefðu þér 5 mínútur til að byrja með í þessa æfingu
Byrjandi: þú náðir að telja upp að 5 eða færri andardráttum
Með grunn: þú náðir að telja á milli 5-10 andardrætti
Með reynslu: þú náðir að telja fleiri en 10 andardrætti
Sigurvegari: Þú náðir að telja fleiri en 20 andardrætti
Æfingin hjálpar okkur að hægja á „þvottavélinni“ sem við upplifum stundum að hugsanir okkar séu. Þegar þær þeytast bara endalaust og okkur finnst við ekki ráða neitt við neitt. Það góða við að hægja aðeins á, er að við getum farið að sortera, gera grein fyrir mikilvægu hugsununum og þeim sem mega alveg fljóta hjá án þess að fá mikla athygli.
Láttu mig endilega vita hvernig gengur!
Eygló Egils,
eyglo@jakkafatajoga.is